Græn skref í hársnyrtingu, í átt til framtíðar!

Græn hársnyrting er nokkuð sem er orðið vel þekkt á hinum Norðurlöndunum, en á Íslandi virðist sem svo að hinn almenni neytandi sé ekki mjög meðvitaður eða upplýstur um hvað græn hársnyrting er. Uppruna grænnar hársnyrtingu má rekja til Kaupmannahafnar árið 2006. Með stuðningi Umhverfisstofnunnar Kaupmannahafnarborgar hafa samtökin Grøn Salon vaxið og dafnað síðastliðin þrettán ár og eru nú á fjórða tug grænna hársnyrtistofa í Danmörku, auk fjölda margra í nágrannalöndunum Noregi, Svíþjóð og Finnlandi, Færeyjum, tvær á Íslandi, ein í Perú, Ástralíu og Hollandi (Grøn Salon, 2019).

En hvað er græn hársnyrting?

Grøn Salon eru félagasamtök sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni (e. Non profit organisation), með það að markmiði að útrýma öllum skaðlegum eiturefnum innan hársnyrtibransans, þar sem byrjað er á þeim verstu og svo hægt og bítandi unnið í gegnum listann þar til engin skaðleg eiturefni séu til staðar inni á grænum stofum framtíðarinnar (Grøn Salon, 2019). Skilyrðin eru sem hér segir og þýdd frá vefsvæði Grøn Salon (Grøn Salon, 2019);

  1. Sá aðili sem er í ábyrgðarstöðu innan stofunnar hefur þekkingu á efnafræði og áhrif afurða á heilsu. Viðkomandi þarf að hafa undirgengist námskeið á vegum Grøn Salon um efnafræði, vinnuaðstæður og heilsu starfsmanna innan hársnyrtifagsins.
  2. Eigandi stofunnar/rekstrarstjóri þarf að hafa lokið hefðbundinni menntun innan fagsins og vera með sveinsbréf. Aðrir starfsmenn þurfa einnig að uppfylla þessi skilyrði.
  3. Engin efni eru leyfð inni á stofunni sem eru á bannlista á vefsvæði Grøn Salon. Nemar hafa heldur ekki leyfi til þess að vinna með þessi efni inni á stofunni. Vörur í smásölu, augabrúna- og augnháralitir mega heldur ekki innihalda nein efni af bannlistanum. Vörur sem innihalda efni af bannlistanum þarf að fjarlægja af stofunni algjörlega áður en hægt er að gefa út vottunina.
  4. Stofan og starfsfólk hennar er sérlega meðvitað um ofnæmi og ofnæmisvalda. Viðskiptavinir eru spurðir út í ofnæmi áður en að meðhöndlun hefst og skal halda skrá yfir þá viðskiptavini sem eru með þekkt ofnæmi. Komi fram ofnæmisviðbrögð við meðhöndlun er viðskiptavinur hvattur til þess að sækja sér læknisþjónustu strax. 
  5. Aflitunarefni mega aldrei snerta hársvörð.
  6. Þrif skulu vera framkvæmd með umhverfisvottuðum hreinsiefnum.
  7. Sé boðið upp á veitingar, skulu þær vera lífrænt vottaðar.
  8. Rekstrarstjóri eða sá sem er ábyrgur fyrir stofunni skal sitja endurmenntunarkúrs annað hvert ár á vegum Grøn Salon.
  9. Rekstrarstjóri eða sá sem er ábyrgur fyrir stofunni skal sjá til þess að allt annað starfsfólk sé upplýst og meðvitað um það hvað Grøn Salon stendur fyrir.
  10. Kaup á rafmagni skulu koma frá birgja sem tryggir að rafmagnið sé unnið frá endurnýtanlegum orkugjöfum.

(Grøn Salon, 2019).

Óháður vottunaraðili á Íslandi er Unnur Rán Reynisdóttir – sem hefur sérhæft sig sem grænn fagmaður í hársnyrtingu í áraraðir.

Mikilvægi gagnrýninnar hugsunar

Megin tilgangur þessarar umfjöllunar er hins vegar að benda á mikilvægi gagnrýninnar hugsunar þegar spurt er að því hvort að það sé siðferðislega rétt að starfa sem hefðbundinn hársnyrtir. Fjölda rannsókna hafa sýnt fram á skaðsemi efna sem notuð eru innan hefðbundinnar hársnyrtingar. Rannsóknir hafa verið gerðar í Danmörku, hjá Vísindasiðanefnd Evrópusambandsins (e. ESC) og innan Grøn Salon. Líkt og nefnt var hér að framan, þá eiga margar rannsóknir ESC það sameignlegt að það eru ekki tekið til greina þættir þar sem skoðaðir eru til hlítar bein áhrif og afleiðingar á þá sem að vinna með efnin daglega og krossafleiðingar notkunar á fjölda efna. Þar sem að Grøn Salon leggur stærsta fókusinn á aðbúnað og vinnuumhverfi hársnyrta, þá hefur þetta verið þeim mikið hitamál. Jákvæð fylgni þess að huga að starfsfólki fyrst sést svo í betri líðan og upplifun viðskiptavina og umhverfisvænni starfsháttum sem eru jákvæðir fyrir jörðina, sérstaklega á tímum hamfarahlýnunar.

Háralitun þarf ekki að vera skaðleg

Háralitun þarf ekki að vera skaðlegHefðbundnir hársnyrtar starfa á hefðbundinn hátt, þ.e. líkt og kennt er innan menntakerfisins. Stuðst er við rótgrónar kennsluaðferðir og framkvæmd við hársnyrtingu sem hefur lítið breyst síðustu áratugi. Nemendur fá litla sem enga kynningu á grænni hársnyrtingu og margar mýtur fyrirfinnast sem hljóma á þann hátt að; ekki sé hægt að ná fram sömu útkomu líkt og innan hefðbundinnar hársnyrtingu, að ,,henna“ sé svo ofnæmisvaldandi og svo mætti lengi halda áfram.

Auðvelt er að útrýma þeim mýtum, m.a. með því að vísa í rannsóknir vísindasiðanefndar Evrópusambandsins þar sem gerð var rannsókn á hreinu henna og sýnt fram á að henna sé ekki ofnæmisvaldandi, þó síður sé. Hins vegar eru til fjölda vara sem innihalda Paraphenylenediamine, oft skammstafað sem PTD og PPD. Þetta efni er mjög ofnæmisvaldandi og er aldrei notað inni á grænum hársnyrtistofum. Þetta efni er líka í mörgum jurtalitum sem seldir eru í lausasölu, m.a. í heilsubúðum og þannig er ofnæmistengingin við henna komin. Hreint henna er jurt sem hefur verið notuð í árþúsundir og er litur hennar koparrauður. Oft er henna notað sem samheiti yfir jurtaliti, en það er hreinlega rangt.

Jurtalitir eru margir og mismunandi að lit, en ekki er til hreinn jurtalitur sem þekur grátt hár eða er mjög dökkur. Þeir jurtalitir sem seldir eru með loforðum um fyrrnefnda þekju eða mjög dökkan lit innihalda þ.a.l. PPD. Hefðbundnir háralitir sem notaðir eru á hársnyrtistofum og sem eru seldir í lausasölu í verslunum innihalda undantekningalaust þetta efni. Þetta eru litir sem byggja á samspili lits og festis og oxast. Verði einstaklingur var við kláða, sviða eða önnur óþægindi við háralitun, þá er um ofnæmisviðbrögð að ræða. Komi þessi einkenni fram einu sinni munu þau koma fram aftur og ómöguleg er að vita hvenær viðbrögðin valda alvarlegu ofnæmiskasti. Það gæti verið í fyrsta skiptið, en það gæti líka verið í hundraðasta eða þúsundasta skiptið. Alvarlegt ofnæmiskast getur valdið dauðsfalli í alvarlegustu tilfellunum rétt eins og þegar um annað ofnæmi er að ræða.Auk jurtalita sem notaðir eru á grænum hársnyrtistofum eru notaðir annars konar litir sem eru þróaðir á rannsóknarstofum rétt eins og hefðbundnu háralitirnir. Munurinn er hins vegar sá, að þessi litir innihalda engin ofnæmisvaldandi eða hormónatruflandi efni. Þeir eru byggðir upp á mjólkursýrum og virkni þeirra felst í neikvæðum og jákvæðum rafshleðslum hárstrásins sem mynda festu og gera það að verkum að liturinn er fastur litur líkt og hinir hefðbundnu oxidant litir.

Jurtalitir er fallegir

Hársnyrtar vita oft ekki betur

Þegar skoðaðir eru þeir þættir sem ná til grænnar hársnyrtingar í samanburði við hefðbundna hársnyrtingu er auðveldlega hægt að færa rök fyrir því af hverju það sé siðferðilega rangt að starfa sem hefbundinn hársnyrtir. En þar liggur einmitt hundurinn grafinn. Hársnyrtifólk veit almennt ekki af hættunni sem þau standa frammi fyrir dags daglega. Húðofnæmi, útbrot, exem, öndunarfærasjúkdómar og stoðkerfisvandamál er meðal þess sem hársnyrtar glíma við í miklum mæli, og það sem meira er - þessi vandamál eru orðin svo samofin iðngreininni að það er búið að normalísera að miklu leyti allt að framantöldu. Margir hrökklast úr starfi og meðal starfsaldur hársnyrta er ekki nema 6-8 ár, að meðtöldum þeim 4 árum sem taka að læra iðnina. Þetta eru sláandi tölur og stórt vandamál sem er sameiginlegt innan allra Norðurlandanna. En þetta þarf ekki að vera svona. Ef gagnrýnin hugsun væri til dæmis kennd sem almennt fag innan grunnskólanna væru líklega mun fleiri starfandi hársnyrtar í dag en raun ber vitni, og þá má leiða líkur að því að enn fleiri væru starfandi sem grænir hársnyrtar.

En það er ósanngjarnt að gera alla hársnyrta blóraböggla í þessu samhengi. Ábyrgðin liggur ekki hjá þeim einvörðungu, en þeir hafa í krafti fjöldans raunverulegan mátt til þess að breyta þeim venjum sem komnar eru á ef samtakamátturinn og þekkingin væri almennt til staðar innan fagsins. En til þess þá þarf kennslan líka að breytast og ,,nútímavæðast“.  

 

Það er vel hægt að koma á jákvæðum breytingum innan fagsins til frambúðar,  en til þess þarf margt að breytast, kennsluaðferðir, þekking og fræðsla og vilji til þess að skoða aðrar, jafn áhrifaríkar leiðir til þess að styrkja fagið til framtíðar. Fagið mætti styrkja til muna með kennslu á gagnrýninni hugsun til dæmis, sem myndi skila sér beint til neytenda og auknum kröfum þeirra á aðgengi að hreinum, umhverfisvænum, og skaðlausum vörum, og þar sem að þekking fagmannsins væri í takt við kröfur nútímans.

Birgitta Ásbjörnsdóttir

Starfandi grænn hársnyrtisveinn í Svíþjóð.

 

Heimildir

European Scientific Committee. (8. nóvember 2019). European Scientific Committee. Sótt 8. nóvember 2019 frá ec.europa.eu/health/scientific_committees/consumer_safety_en: https://ec.europa.eu/health/scientific_committees/consumer_safety_en

Grøn Salon. (27. október 2019). groensalon.com. Sótt 27. október 2019 frá groensalon.com: https://www.groensalon.com/

Umhverfisstofnun. (án dags.). Hárlitur. Sótt 2019 frá Umhverfisstofnun: https://www.ust.is/graent-samfelag/efnamal/snyrtivorur/harlitur/