Við erum að stækka, fleiri vörur, meira fjör!

Á vormánuðum var ákveðið að Ýmir Import ehf. yrði dreifingaraðili fyrir ítalska vörumerkið  TEK, sem framleiðir handgerða bursta, greiður og kamba. Í boði frá þeim er vörur ætlaðar fagfólki í háriðninni, sem og til einkanota heima við.

Þegar Covid-19 geisaði sem hæst,  þá seinkaði allri afgreiðslu frá Ítalíu. Þar sem TEK starfar eftir ströngum félagslegum og umhverfislegum kröfum, þá framleiðir fyrirtækið vörurnar eftir pöntunum og liggur því ekki með mikinn lager. Þetta krefst aðeins meira skipulags frá okkar bæjardyrum en aftur á móti vitum við að þannig náum við betri hagræðingu til lengri tíma fyrir bæði fyrir félagið sem og neytendur.

TEK er ítalskt fjölskyldufyrirtæki sem hefur framleitt bursta, greiður og kamba í yfir 40 ár og á þeim árum verið leiðandi í þróun á nýjum aðferðum við framleiðsluhætti og nýsköpun. Býr fyrirtækið meðal annars að því að hafa verið fyrstir allra að þróa, hanna og framleiða keramíkplötur í blástursbursta, og er sú framleiðsla einkaleyfisvarin. Frá upphafi hefur virðing fyrir náttúrunni og umhverfinu verið gegnum gangandi í fyrirtækinu. Allar TEK vörurnar hafa FSC©  vottun sem tryggir að viðarefnið komi frá vel stýrðum skógum sem standast umhverfis, félagsleg og efnahagsleg viðmið. Umbúðir eru einnig allar úr óbleiktum FSC©  vottuðum ítölskum pappa.

Að auki notar TEK RECS-vottaða orku við sína framleiðslu og tekur reglulega þátt í þróun og rannsóknum á endurnýjanlegum orkugjöfum.

Nýverið hafa tréburstarnir fengið VeganOK vottun sem tryggir að vörurnar innihaldi ekki hráefni úr dýraríkinu. TEK hefur einnig hina virtu og alþjóðlegu „B-Corporation“ vottun. Það merki þýðir að fyrirtækið rekur opinn og ábyrgan rekstur sem uppfyllir strangar félagslegar og umhverfislegar kröfur.

Það sem að fékk okkur til þess að kolfalla fyrir TEK, er að öll framleiðslan er umhverfis- og vistvæn og smellpassar inn í stefnu félagsins. Svo að sjálfsögðu höfum við verið að prófa vörurnar, bæði heima og á stofu og þær standast allar þær kröfur sem að við setjum og virka vel undir miklu álagi. Enda eru þær líka þróaðar af fagfólki, fyrir fagfólk og almenning.

Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna er okkar leiðarljós hér hjá Lofn. Við erum þess fullviss að þegar við, öll fyrirtæki og einstaklingar taka höndum saman og störfum eftir heimsmarkmiðunum þá verður veröldin betri. Á allan hátt! Þegar við skoðuðum TEK og vorum að velta þessu fram og til baka, þá sáum við mjög fljótt að TEK  er að starfa eftir nokkrum heimsmarkmiðum, og við erum mjög stolt yfir því að að leiðir okkar lágu saman. Því að í sameiningu getum við unnið markvisst eftir heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna.

Þau markmið sem að við hjá Ými Import / lofn.is leggjum megináherslu á (ásamt fleirum) og eru einnig í algjöru samræmi við stefnu TEK eru:

Markmið 3 – Heilsa og vellíðan.

Stuðla að heilbrigðu líferni og vellíðan fyrir alla frá vöggu til grafar.

Leiðir okkar að markmiðum:

Við bjóðum eingöngu upp á vörur sem stuðla að heilbrigðu líferni og vellíðan fyrir alla. Engin skaðleg efni sem geta borist í menn, dýr eða umhverfi verða á boðstólnum hjá okkur.  Við erum líka með skýra starfsmannastefnu sem miðast að heilbrigðu líferni og vellíðan.

Markmið 15 – Líf á landi.

Vernda og endurheimta vistkerfi á landi og stuðla að sjálfbærri nýtingu þeirra, vinna að sjálfbærri stjórn skóga, berjast gegn eyðimerkumyndun, stöðva jarðvegseyðingu, endurheimta landgæði og sporna gegn hnignum líffræðilegrar fjölbreytni.

Leiðir okkar að markmiðum:

Félagið kolefnisjafnar allan rekstur með gróðursetningu á trjám. Hugað er að heimabyggð og ákveðið hefur verið að styðja við Lions klúbbinn Dynk í Skeiða- og Gnúpverjahreppi með kaupum á trjám til gróðursetningar í Þjórsárskógi. Á þann hátt erum við að styðja við þeirra góða starf og erum að endurheimta landgæði. 

Með því að gerast dreifingaraðili fyrir TEK frá Ítalíu erum við að styðja við bakið á þeirra markmiðum og þannig er keðjan að virka. Allur viður sem er notaður í bursta og pinna er vottaður frá sjálfbærum skógi á Ítalíu. FSC® vottunin er frábært verkfæri í þeirri vegferð.

En af hverju ættum við að nota TEK hárbursta, greiður eða kamba?

Við vitum að tréhandföngin og trépinnarnir slíta ekki hárinu, né hleypa stöðurafmagni í hárið líkt og plastburstar geta gert. Í burstunum er notað náttúrulegt hrágúmmí, laust við jarðolíur.

Náttúrulega hrágúmmíið í púðanum gerir þá mjúka og hjálpa til við að nudda hársvörðinn, örva blóðflæðið og styrkja hárræturnar. Mikið af burstum á markaðnum í dag eru gerðir úr plastefnum og framleiðsluhættir geta verið á þann veg að misfellur í pinnunum eða hárunum geta slitið hárinu. Auk þess geta plastburstar og greiður oft laðað að sér óhreinindi með rafmagnsleiðni og hafa því neikvæð áhrif á hársvörðinn. Þannig getur því myndast til dæmis flasa og aðrir kvillar með notkun á plastburstum og greiðum. Plastið er einnig gert úr jarðolíu og hefur afar neikvæð áhrif á umhverfið líkt og við vitum öll.  Pinnarnir í TEK burstum eru fullkomlega mótaðir og sléttir, þannig að þeir skemma ekki hárið. TEK burstar, greiður og kambar eru handgerðir á Ítalíu; þar sem öll umhverfisviðmið eru ráðandi og vottað. Ströng gæðastjórnun gerir það að verkum að allar TEK vörurnar eru hágæða vörur með umhverfissjónarmið að leiðarljósi.

En hvað er FSC®?

 FSC® (e. Forest Stewardship Council) vottun merkir að annað hvort viður eða pappír sem notaður er, kemur frá fyrirtækjum sem stunda sjálfbæra skógrækt. Fyrirtækið sem sér um  skógarhöggið þarf að uppfylla ströng skilyrðir til að fá FSC© vottun. Sjálfstæð stofnun, eins og SCS Global Services, skoðar alla verkferla skógarhöggsfyrirtækisins er varðar sjálfbærni og félagslegan ávinning þess og einnig hversu fjárhagslega hagkvæmt það er.

FSC© samtökin passar upp á að hvergi sé skógarhöggið of mikið á hverjum stað fyrir sig og hugað sé að öllum dýrategundum og plöntum sem búa í skóginum og sérstaklega þær sem eiga undir högg að sækja.

FSC©  vernda líka ár og vötn, þannig að þau mengist ekki, passa upp á að umhverfisspjöll (vegir og annað sem gerðir eru til flutnings á trjám) sé í lágmarki og ekki sé verið að troða á réttindum annarra.

Fyrirtæki sem nota FSC© auðkennisvottun nota eingöngu efnivið sem rekja má til framleiðslu frá upphafi og þangað til varan er afhent.

Hlýnun jarðar er einn af þeim þáttum í umhverfismálum sem við erum flest sammála um að takast þarf á við. Við viljum styðja ábyrga skógrækt þar sem reynt er að hægja á því ferli sem leiðir til frekari hlýnunar. Í grófum dráttum getum við sagt að í regnskógum jarðarinnar þar sem tré eru felld án allrar ábyrgðar þá er hleypt út meiri koltvísýring sem svo aftur leiðir til frekari hlýnunar.

Með ábyrgri skógrækt er verið að reyna að hægja á hlýnun og jafnvel er verið að vinna gegn henni með því að gróðursetja tré í staðinn fyrir þau sem felld eru.

Ágrip úr sögu TEK

Árið 1977 var félagið stofnað og byggðist á hugmynd Giulio Valsecchi. Frá upphafi hefur félagið starfað með einkaleyfi á þessari einstöku vöru: Tréburstar með trépinnum. Við val á efniviði var horft til einstaka eiginleika þess og er það sérlega hentugt fyrir umhirðu bæði hárs og líkama.

TEK staðsetti sig strax sem nýstárlegt og aðlaðandi fyrirtæki. Afurðir þess voru sýndar á MOMA (Modern Art Museum of New York) og hefur fyrirtækið meðal annars fengið heiðursverðlaun Gran International – hjá vísinda- og tæknisafninu í Mílanó. Árið 2000 urðu ákveðin kaflaskil þar sem TEK fékk einkaleyfi á nýstárlegri hönnun og þróun á keramik plötum í hringburstum. Tæknin var þróuð með geimferðir í huga en frumkvöðullinn Giulio Velsecchi sá notagildi í þeim og fór að þróa faglegan og fullkominn hárbursta fyrir hársnyrtifólk. Ceramik® blástursburstarnir frá TEK eru orðnir leiðandi í dag og flestir fagmenn í háriðninni þekkja þessa frábæru vöru. TEK framleiðir bursta fyrir þekkt vörumerki eins og Emporio Armani, L´Oreal, Kerastase, Wella, Victoria´s Secret og fleiri.

Við erum svo sannarlega ánægð með að geta boðið uppá þessar frábæru vörur og halda áfram á þeirri braut; að vera leiðandi í grænum lausnum fyrir háriðnina hér á landi. Við höfum með þessu tekið ákveðin og stór skref í viðleitni okkar í að minnka eiturefnanotkun á hár- og snyrtistofum ( og heimafyrir) og á sama tíma huga að umhverfisvitund okkar.