Við elskum krullur!

Krullur!

 

Við elskum krullur!

Þeir sem hafa krullað/liðað hár vita hins vegar að oft getur það reynst þrautinni þyngri að halda hárinu heilbrigðu og frísklegu.

,,Hvernig stendur á því?“ Spyrja flestir viðskiptavinir mínir mig sem hafa mikið krullað eða liðað hár. Í flestum tilvikum þá hafa þessir einstaklingar aldrei fengið almennilega fræðslu um hvernig sé best að haga umhirðu hársins til þess að halda því í jafnvægi.  Margir hafa því prófað sig áfram árum saman og oft dottið niður á aðferðir sem að henta þeim svona nokkurn veginn. Mig langar því að koma með smá fróðleik og ráð og benda á nokkrar einfaldar lausnir sem hafa reynst mínum viðskiptavinum vel.

Krullað eða liðað hár er oftar en ekki mjög þurrt.

Ástæðan er sú að oftast er þess konar hár aðeins grófara en annað hár, þ.e., hárstráið er opnara, sem gerir það að verkum að hárið heldur ekki inni rakanum jafn vel og ella.

Vöndum valið þegar kemur að hársápu og hárnæringu!

Þegar við þvoum hárið og notum sjampó, þá opnum við hárstráið og til þess að loka því aftur notum við hárnæringu. Ég er ekki að segja að það sé slæmt að nota sjampó, þvert á móti. Við verðum hins vegar að vanda valið vel og nota sjampó sem er sérstaklega ætlað krulluðu/liðuðu hári. Næring er jafn mikilvæg og sjampóið, því að hún virkar eins og lás á hárið og hálpar þannig hárstráinu að halda inni rakanum sem að við erum að reyna að fá inn með því að velja réttu hárvörurnar. Sjampó sem er sérstaklega hannað fyrir krullað eða liðað hár er ætti að vera mjög rakagefandi, en ekki bara með raka og næringu úr vatni. Það er því ofsalega mikilvægt að vörurnar innihaldi góðar olíur því að það eru þær sem að vinna alla vinnuna. Þú vilt fá olíurnar inn í hárstráið því að þær vernda það fyrir öllum veðrum og vindum. Sól og frost geta valdið miklum usla í krulluðu og liðuðu hári ef það er óvarið og opið.

Sílikon er skaðlegt.

Vörur sem innihalda sílikon ætti fólk aldrei nokkurn tímann að nota! Sílikon er fyrir það fyrsta gríðarlega skaðlegt umhverfinu okkar og ætti þess vegna aldrei að snerta hárið okkar eða húð. Það sem gerist þegar við notum það reglubundið í hárvörum, þá byggist það upp með tímanum og býr til hjúp á hárstráin okkar. Það gefur augaleið að ef að hárið hefur verið meðhöndlað með sílikoni til lengri tíma þá er hjúpurinn orðinn svo þykkur að hárið fær aldrei það súrefni sem það þarf, og fínu lúxus hárvörurnar þínar ná ekki að vinna vinnuna sína því það er allt lok, lok og læs! Það er tvennt til viðbótar sem að mig langar að bæta við varðandi sílikonið, í fyrst lagi þá mun hárið glansa ,,like crazy“ því að það er jú það sem að sílikonið á að gera, fá hárið til þess að glansa. En til eru hreinar náttúrulegar vörur sem fá hárið til þess að glansa af heilbrigði og af sjálfsdáðum! Mjög margar, ef ekki flestar vörur sem eru markaðssettar sem Vegan vörur innihalda sílikon. Sílikon er jú Vegan. Ég bið viðskiptavinina mína alltaf um að hafa þetta í huga þegar þeir eru að spyrja ráða varðandi vörur.

Algengustu mistökin sem við gerum er að þvo hárið of oft. Það ætti í rauninni engin/n/ekkert að þurfa að þvo hárið oftar en tvisvar í viku. Þess á milli getum við samt haldið hárinu hreinu áreynslulaust. Það tekur bara smá tíma og þolinmæði til þess að koma hárinu í gott jafnvægi þannig að hárþvotturinn endist okkur lengur.

Ef að þú ert að skipta yfir í hreinar hárvörur eftir að hafa notað hefðbundnar hárvörur í lengri tíma, þá geta umskiptin tekið aðeins lengri tíma og krafist ögn meiri þolinmæði.

 Mín ráð til þín.

Eftirfarandi ráð hafa reynst mér sjálfri og viðskiptavinum mínum afar vel:

Djúphreinsun

-Djúphreinsa og djúpnæra hárið í sirka mánuð áður en byrjað er að byggja það upp að nýju með hreinum hárvörum. Vörur sem henta vel til þessa eru sjampó no.4 og djúpnæring no.22. Ef að þú ert viðkvæm/ur/t fyrir ilmefnum eða með astma og/eða ofnæmi mæli ég með að nota sjampó no.5 og djúpnæringu no.23. Nákvæmlega sama kombó, annað með ilm, hitt ekki. Athugaðu að á meðan þessu hreinsunarferli stendur, þá mun hárið verða stífara og stamara, í sumum tilfellum úfnara og erfiðara en það er vel þess virði að komast í gegnum djúphreinsunina og byrja á núllpunkti til þess að geta byrjað að byggja það upp að nýju. Ég segi sirka mánuð, það er alveg í það lengsta og miðað við þá sem að þvo hárið sjaldnar nú þegar. Langbest er að leyfa djúpnæringarmaskanum að virka í minnst 10 mínútur, helst klukkutíma, en það er líka allt í lagi að sofa með hann og þvo hann úr að morgni. Það eru langt í frá allir sem þurfa að gera þetta svona lengi en þetta ferli miða ég við 4-8 hárþvotta.

Hársápa

-Byrja að nota rakagefandi og nærandi sjampó og næringu fyrir krullað/liðað hár. Ég mæli með sjampói no. 2 og næringu no.2. Lyktin af þessari tvennu er algjörlega mitt uppáhald. Minnir á döggvotar eyðimerkursléttur Afríku eftir regntímabil…eða ég ímynda mér það allavega! Fyrir þá sem kjósa að nota ilmefnalausar vörur, þá fæst líka sjampó no.7 sem er ilmefnalaust og með því er snilld að nota næringu no.3.

-Fækka hárþvottum sýstematískt niður í einu sinni til tvisvar sinnum í viku.

Co-Wash aðferðin

-Á milli hárþvotta er geggjað að nota co-wash aðferðina, en hún byggist á því að skola hárið með vatni og þrífa það svo einungis upp úr næringu. Sem fyrr, þá mæli ég með næringu no.2 í þetta fyrir krullað og liðað hár eða næringu no.3 fyrir þá sem kjósa ilmefnalausar vörur.

Það sem gerist þegar þessari aðferð er beitt, þá frískarðu upp á hárið og semí þværð það án þess að nota sjampó. Hentar fullkomlega fyrir þá sem að æfa mikið eða finnast hárið verða fljótt skítugt og/eða nota mikið af mótunarvörum daglega. Sjálf hef ég gert þetta mjög lengi og er yfirleitt ekki að þvo hárið oftar en einu sinni í viku og co-wash tvisvar í viku á milli þvotta. Örsjaldan þvæ ég hárið tvisvar í viku og co-wash þá einu sinni á milli. Með því að tileinka sér þessa aðferð þá fær hárið næði til þess að koma jafnvægi á fituframsleiðslu í hársverði og hárið nær að fullnýta öll góðu innihaldsefnin í hárvörunum sem skilar sér svo sem hár sem glansar af náttúrulega heilbrigði og frískleika.

 

Ég vona að þetta komi að góðum notum fyrir flesta, þar til næst!

 

Birgitta